Heildarstjórnarlaun til stjórnarmanna í Teymi nema 600 þúsund krónum á mánuði. Þá eru greiddar 800 þúsund krónur fyrir stjórnarformennsku.

Þetta kemur fram í skjali sem Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Teymis, sendi hluthöfum um síðustu mánaðamót og Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Þar kemur jafnframt fram að stjórnarmenn sem sitja í stjórn Teymis skipi jafnframt stjórnir allra dótturfélaga félagsins. Þannig kemur fram í bréfinu að stjórnarlaun frá hverju félagi séu því um 120 þúsund að meðaltali að stjórnarformanninum undanskildum.

Þórður Ólafur situr í stjórn Teymis fyrir hönd Vestia sem jafnframt er stærsti eigandi Teymis og á um 62% hlut. Þá á Straumur um 15% og aðrir minna. Steinþór Baldursson situr jafnframt í stjórn Teymis fyrir hönd Vestia en báðir eru þeir starfsmenn Vestia.

Steinþór segir í samtali við Viðskiptablaðið að stjórnarlaun sín og Þórðar Ólafs renni óskipt inn í Vestia. Það sé í samræmi við starfsreglur Vestia. Auk þeirra tveggja situr Lúðvík Örn Steinarsson hrl. í stjórninni fyrir hönd Vestia en hann var skipaður sem óháður aðili í kjölfar sáttar Teymis við Samkeppniseftirlitið vegna málefna Tals (sem áður var í eigu Teymis).

Lúðvík Örn fær greitt í eigin vasa fyrir stjórnarsetuna ásamt Einari Páli Tamimi, sem situr í stjórn fyrir hönd fagfjárfesta sem voru í hópi kröfuhafa félagsins.

Þá situr Gísli Valur Guðjónsson jafnframt í stjórninni en hann situr fyrir hönd ALMC (áður Straumur fjárfestingabanki). Stjórnarlaun hans renna til ALMC. *

Þá kemur fram í bréfi Þórðar Ólafs að stjórn Teymis hafi samþykkt greiðslu reikninga upp á alls 10,8 m.kr. vegna starfa Einars Páls og Lúðvíks Arnar umfram hefðbundin stjórnarstörf fyrir félagið sl. vetur.

*Athugasemd: Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins kemur fram að Gísli Valur fái stjórnarlaun sín greidd í eigin vasa. Það er ekki rétt og er beðist velvirðingar á þeirri rangfærslu. Hið rétta er, eins og fram kemur hér að ofan, að stjórnarlaun hans renna til ALMC. Gísli Valur er fjárfestingarstjóri hjá ALMC sem er stór hluthafi í Teymi. Verkefni Gísla Vals er að sinna eignum ALMC og í krafti þess situr Gísli Valur í stjórn Teymis og dótturfélaga þess.