Seðlabanki Íslands segir tilhæfulausar staðhæfingar finna um gjaldeyrishöftin og afgreiðslu beiðna um undanþágur frá þeim í bréfi Viðskiptaráðs sem sent var fjármála- og efnahagsráðherra og Umboðsmanns Alþingis. Í bréfinu var stjórnsýsluframkvæmd bankans gagnrýnd.

Í bréfinu kvartaði Viðskiptaráð m.a. undan því að að afgreiðslur beiðna taki of langan tíma, að ákvarðanir gjaldeyriseftirlitsins séu ekki birtar og að gagnsæi sé ábótavant. Þá telur Viðskiptaráð að stjórnsýsluhættir Seðlabankans feli mögulega í sér brot á jafnræðisreglu. Síðasttöldu gagnrýnina segist Seðlabankinn taka alvarlega.

Afgreiða beiðnir á tveimur til átta vikum

Í yfirlýsingu frá Seðlabankanum vegna málsins segir að það sé ávallt fagnaðarefni þegar hagsmunaaðilar láti sig fjármagnshöftin varða og komi með ábendingar sem margar hverjar geta verið gagnlegar. Hins vegar sé nauðsynlegt að leiðrétta tilhæfulausar staðhæfingar í bréfi Viðskiptaráðs og þarfnist aðrar fullyrðingar skýringar.

Þá segir í yfirlýsingu bankans að gjaldeyriseftirliti hans berist yfirleitt um 800 til 1000 beiðnir um undanþágu á ári og hafi hlutfallið skipst nokkuð jafnt milli einstaklinga og lögaðila. Þá séu yfirleitt rúm 300 mál í vinnslu hverju sinni. Afgreiðslutími beiðna er að meðaltali átta vikur en frá tveimur til fjórum vikum þegar kemur að beiðnum einstaklinga.

Alls er 95% þeirra fyrirspurna sem berast gjaldeyriseftirlitinu með rafrænum hætti svarað innan sjö daga frá móttöku þeirra. Í þeim tilfellum sem það næst ekki er viðkomandi greint frá ástæðum tafanna sem yfirleitt má rekja til mikilla anna innan deildarinnar, að því er segir í yfirlýsingu Seðlabankans.