Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið kínverska fyrirtækinu ByteDance 90 daga til að selja bandaríska hluta TikTok appsins í eigu félagsins. Microsoft hefur sýnt áhuga á að kaupa appið, en nú virðist óvissa um hvort það gangi eftir .

Jafnframt þarf félagið að eyða öllum gögnum sem félagið hefur safnað í Bandaríkjunum en eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir mánuði síðan er félagið sakað um að hafa vistað gögn frá bandarískum notendum sem stjórnvöld þar í landi óttast að komist í hendur kommúnistastjórnarinnar í Kína.

Trump segir að trúverðugar sannanir sýni að ByteDance gæti ógnað þjóðaröryggi Bandaríkjanna í kjölfar kaupa félagsins á öðru appi, Musical.ly. Í kjölfar nýju tilskipunar Trump þarf félagið að sýna fram á það vikulega að það sé ekki að safna gögnum um bandaríska notendur.

TikTok appið hefur orðið mjög vinsælt síðustu misseri víða í vesturlöndum og er þetta fyrsta kínverska appið til þess að ná almennum vinsældum í Bandaríkjunum. Var því hlaðið niður 315 milljón sinnum á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem er meira en nokkurt annað app í sögunni.

Á móti hefur TikTok hótað lögsóknum vegna fyrirskipana Trump, en í síðustu viku setti hann 45 daga frest til sölu á félaginu. Jafnframt heitir félagið því að engin gögn fari til kínverskra stjórnvalda.

Hér má lesa frekari fréttir um smáforritið: