Félagið Reynimelur ehf. hefur að undirlagi Samkeppniseftirlitsins gengist undir sátt á grundvelli samkeppnislaga og reglna um málsmeðferð samkeppnisyfirvalda og fallist á að eignarhaldi félagsins verði breytt þannig að Hagvagnar ehf./Hópbílar ehf. munu ekki lengur hafa yfirráð yfir Reynimel og þar með ekki yfir keppinauti sínum Kynnisferðum. Þá mun fullur rekstrar- og stjórnunarlegur aðskilnaður vera á milli Hagvagna/Hópbíla annars vegar og Reynimels /Kynnisferða hins vegar. Er Hagavögnum/Hópbílum annars vegar og Reynimel/Kynnisferðum hins vegar óheimilt að hafa með sér hvers kyns samvinnu eða hafa samráð um verð og viðskiptakjör, þjónustu, markaðsmál o.s.frv.

Helstu málavextir eru þeir að í fyrravor keypti Reynimelur ehf. allt hlutafé FL Group í Kynnisferðum. Við undirritun kaupsamnings í fyrravor var Reynimelur sameinaður fyrirtæki undir forystu Hagvagna hf., Hópbíla hf. og SBA-Norðurleiðar. Stærstu hluthafar Reynimels voru BNK ehf, í eigu BNT hf. sem er dótturfélag N1, og ferðaskrifstofan Atlantik. Samanlögð velta þeirra félaga sem standa að Reynimel var á seinasta ári rúmlega 1,5 milljarðar króna.Á sama ári var velta Kynnisferða einnig rúmlega 1,5 milljarðar króna.

Með 60% markaðshlutdeild

Í haust ógilti Samkeppniseftirlitið samruna félaganna á þeim forsendum að hún skaðaði samkeppni.  Komst hún að þeirri niðurstöðu að markaðshlutdeild þeirra aðila sem stæðu að sameiningunni hefði 60% markaðshlutdeild á sínu sviði. Gæti sameinað fyrirtæki í krafti stöðu sinnar takmarkað samkeppni og hagað verðlagningu, þjónustu og viðskiptaskilmálum að verulegu leyti án tillits til keppinauta og viðskiptavina.

Um miðjan nóvember barst stofnuninni síðan ný tilkynning um kaup Reynimels á Kynnisferðum en með breyttu eignarhaldi. Í því fólst m.a. að SBA-Norðurleið og tengdir aðilar, sem áður voru hluthafar í Reynimel, seldu sína eignarhluti í félaginu. Að mati Samkeppniseftirlitsins var þó eftir sem áður um að ræða samruna í skilningi samkeppnislaga og hefði þrátt fyrir breytingar á eignarhaldi skaðleg áhrif á samkeppni.Eftirlitið setti þó skilyrði og að þeim uppfylltum er að mati stofnunarinnar búið að eyða þeim samkeppnislegu vandamálum sem ella hefðu skapast með samrunanum. Var samruninn samþykktur með þeim formerkjum.