*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 19. september 2019 15:59

Fá að framkvæma samrunann strax

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur veitt tímabundna undanþágu frá banni við samruna vegna kaupa Skeljungs á Basko.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson er forstjóri Skeljungs og fyrrverandi framkvæmdastjóri Basko.
Aðsend mynd

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur veitt undanþágu frá banni við samruna, vegna kaupa Skeljungs á öllum hlutum í Basko, á meðan samruninn er til umfjöllunar hjá SKE. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Á þriðjudag var sagt frá því að Skeljungur hefði keypt allt hlutafé í Basko. Síðarnefnda félagið á og rekur fimm verslandi 10-11, fjórtán verslanir undir merkjum Kvikk, verslunina Kvosina sem og matvöruverslanir í Reykjanesbæ og á Akureyri. Helmingshlutur Basko í Eldum rétt ehf. fylgir ekki með í kaupunum. Kaupverðið er 30 milljónir króna auk yfirtöku á 300 milljóna króna nettó vaxtaberandi skuldir.

Sjá einnig: Skeljungur kaupir Basko

Undanþága SKE felur í sér að heimilt er að framkvæma samrunann nú þegar en þó með þeim hætti að unnt sé að vinda ofan af honum verði það niðurstaða SKE að hann raski samkeppni. Einnig ber að tryggja að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar berist ekki á milli samrunaaðila.

Undanþágan byggir á 4. mgr. 17. gr. a. samkeppnislaga. Þar segir að SKE sé heimilt að fallast á slíka undanþágubeiðni sé sýnt fram á það að tafir á framkvæmd samrunans geti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptaaðila þess og að samkeppni væri stefnt í hættu ella.

Kaup Skeljungs á Basko eru háð ýmsum skilyrðum, þar á meðal samþykki SKE.

Stikkorð: Skeljungur Basko