Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun leggja frumvarp fyrir Alþingi á morgun um að fyrirtæki geti fengið greiðslufrest á helmingi tryggingargjalds og staðgreiðslu opinbera gjalda um mánuð. Ríkisstjórnin fundað tvívegis í dag vegna málsins og kynnti fyrir þingflokkum hugmyndina í kvöld. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í tíu fréttum RÚV.

Nýta á næsta mánuð með skattayfirvöldum og hagsmunaaðilum til að finna leiðir til að útfæra úrræði fyrir þau fyrirtæki sem væru að verða fyrir greiðslufalli eða að lenda í þrengingum vegna stöðunnar sem nú væri uppi.

Hann sagði að 40 milljarðar væru til greiðslu hjá fyrirtækjum eftir helgi en eindagi er 16. mars. Fyrirtækjum stæði til boða að fresta helmingi af því um 20 milljörðum króna. Hann sagðist þó vonast til að þau fyrirtæki sem ekki þyrftu á gjaldfresti að halda myndu ekki nýta sér heimildina þannig að það fé myndi nýtast í önnur verkefni.

Aðgerðin væru verulegt súrefni inn í atvinnulífið þar sem margir í ferðaþjónustu eða tengdir ferðaþjónustu væru að upplifa tekjuhrun.

Sjá einnig: Von á aðgerðum í þingið á morgun

Bjarni viðraði þessa hugmynd á Alþingi í dag. „Á meðan þetta ástand varir þurfum við að veita lausafjárfyrirgreiðslu. Það mun ríkissjóður gera eftir öllum mögulegum leiðum en þetta eru ekki auðveldar ákvarðanir sem þingið þarf að taka,“ sagði Bjarni í ræðustól á þingi í dag.

.„Á árinu 2020 erum við að sjá fram á skell. Við trúum að þetta verði tímabundið ástand en það getur enginn sagt eða gefið loforð um að ferðafólk muni koma hingað aftur um leið og ástandið skánar. Við þurfum að hjálpa fyrirtækjum í gegnum erfiða tíma,“ sagði Bjarni enn fremur.

Uppfært 23.10 Frumvarpinu hefur nú verið dreift á vef þingsins. Í því segir að um tímabundna einskiptisaðgerð er að ræða en á þeim tíma sem greiðslufrestur er veittur stefnir ríkisstjórnin að því að vinna nýja útfærslu sem veitir fyrirtækjum sem lenda í vanda kost á greiðsludreifingu. Álagi vegna vanskila verður því ekki beitt fyrr en um miðjan aprílmánuð.

Í frumvarpinu er þess getið að það taki ekki til fjársýsluskatts. Þá eru fleiri skattar og gjöld á gjalddaga á mánudag, til að mynda veiðigjald, olíugjald og skemmri skil virðisaukaskatts. Hið sama gildir um vörugjöld af ökutækjum innfluttum í atvinnuskyni og tveggja mánaða greiðslufresti í tolli. Frumvarpið tekur ekki til þeirra heldur.

Afleiðingar laganna, fari þau óbreytt í gegnum þingið, verða þær að um 22 milljarðar í tekjur til ríkisins munu skila sér seinna í ríkiskassann. Viðbúið er að frumvarpið verði tekið á dagskrá þingsins með afbrigðum í fyrra málið og afgreitt þaðan sem lög áður en dagurinn er liðinn.