Danól, dótturfélag Ölgerðarinnar, hefur hlotið heimild Samkeppniseftirlitsins til að taka yfir hluta af viðskiptasamböndum Ásbjörns Ólafssonar.

Þann 14. maí síðastliðinn gerðu félögin með sér samning um að Danól myndi taka yfir hluta viðskiptasambanda, birgða og tækja Ásbjörns Ólafssonar á sviðum matvöru-, stóreldhúsa- og hreinlætisvara. Kaupin fela þó ekki sér einkaleyfi eða langtímasamninga við birgja og er þeim frjálst að eiga viðskipti við aðra heildsala hér á landi.

Bæði félög stunda heildsölu hér á landi og töldu þau að skörun yrði einna helst á markaði fyrir safa og djús, frosna rétti, hrökkbrauð, kolsýrða drykki, sælgæti og matarkrafta.

Samkeppniseftirlitið taldi að kaupin myndu ekki leiða til markaðsráðandi stöðu eða verulegra samkeppnislegra áhrifa og fengu þau því samþykki eftirlitsins.

Í tilkynningu til fjölmiðla í maí á þessu ári var greint frá því að Ásbjörn Ólafsson myndi alfarið einbeita sér að „sölu og markaðssetningu sérvöru , þ.e. búsáhöldum og gjafavöru bæði fyrir neytendamarkað sem og stórnotendamarkað“.

Á sama tíma hefur samkomulag náðst við Danól ehf. um að taka við rekstri neytendavörudeildar matvöru, sælgætis og bílhreinsivara sem og stóreldhúsadeildar matvöru. Þetta hefur í för með sér að Danól ehf. mun taka yfir flest vörumerki ásamt starfsfólki þessara deilda.“