Þeir sem sæti eiga í fjárlaganefnd fá að sjá afrit af símtali á milli þeirra Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde forsætisráðherra frá í byrjun október árið 2008. Nefndin telur að í símtalinu fáist skýringar á því hvernig ákveðið var að veita Kaupþingi þrautavaralán 6. október sama ár. Lánið nam 80 milljörðum króna og hefur tæpur helmingur þess fengist endurgreiddur. Miklar takmarkanir eru í heimild Seðlabankans fyrir því að nefndin fái að sjá útskrift af samtalinu.

Fjárlanefnd hefur nokkrum sinnum þrýst á Seðlabankann til að fá afrit af símtalinu en ekki tekist. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við vb.is í síðustu viku nóg komið. Nefndin hafi samþykkt að leggja málið í hendur Alþingis.

Seðlabankinn sendir fjárlaganefnd í kjölfarið bréf þar sem fram kemur að nefndarmenn fái að lesa útskrift af símtalinu á sérstökum fundi nefndarinnar með fulltrúum Seðlabankans. Nefndarmenn fá hins vegar ekki að halda eintökum af því né vitna til þess í skýrslum sem gerðar eru opinberar.

Mega ekki vitna í spjallið

Orðrétt segir í bréfinu sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur bankans, skrifar undir:

„Þetta fyrirkomulag myndi hins vegar gera nefndinni kleyft [innskot blaðamanns: stafsetningarvillan er í bréfi Seðlabankans] að taka mið af símtalinu, eftir því sem viðeigandi getur talist, í almennum niðurstöðum sínum varðandi það efni sem hún segist hafa til umfjöllunar.“

Þetta er svipað fyrirkomulag og þegar utanríkismálanefnd fékk að lesa útskrift af hljóðritun símtals þeirra Davíðs Oddssonar og Mervyn King , seðlabankastjóra í Englandsbanka. Þá fengu nefndarmenn að lesa útskriftina en urðu að skila því til baka að lestri loknum.