Á meðal þeirra gagna sem embætti sérstaks saksóknara fékk afhent frá Lúxemborg í byrjun febrúar eru upplýsingar um hverjir eru raunverulegir eigendur félaga og fyrirtækja sem voru í viðskiptum við Banque Havilland, áður Kaupþing í Lúxemborg, og eru til rannsóknar hjá embættinu. Auk þess er þar að finna tölvupósta, lánasamninga, bankareikninga, upplýsingar um viðskipti félaga sem einkabankaþjónusta bankans sá um, önnur fjárhagsleg samskipti og ýmislegt fleira sem snerta rannsóknina, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fengu gögnin afhent eftir ár

Embætti sérstaks saksóknara fékk gögnin afhent í síðustu viku en þá var um ár liðið frá því að húsleit var gerð í Banque Havilland vegna rannsóknar embættisins á kerfisbundinni og skipulagðri brotastarfsemi æðstu stjórnenda Kaupþings í aðdraganda bankahrunsins. Á meðal þeirra brota sem þeir eru grunaðir um er skjalafals, umboðssvik og stórfelld markaðsmisnotkun. Við þessum brotum liggur fangelsisrefsing.

Þeir sem vitað er um að hafa fengið réttarstöðu grunaðra í þessari rannsókn eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Banque Havilland, Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi, og Steingrímur Kárason, fyrrum framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans. Þeir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald eða farbann í maí síðastliðnum á meðan sérstakur saksóknari yfirheyrði yfir 20 manns vegna rannsóknarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.