Undanfarin ár hefur öflugt markaðsstarf Isavia meðal annars skilað því að 17 flugfélög halda uppi áætlunarflugi til Íslands yfir sumarmánuðina og fimm til sex flugfélög eru með áætlunarflug hingað til lands allt árið. Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, segir að sjötta flugfélagið sé Primera Air, sem fljúgi nánast allt árið til Íslands.Elín segir að markaðssetning Keflavíkurflugvallar sem alþjóðaflugvallar haldistí hendur við markaðssetningu Íslands sem áhugaverðs áfangastaðar fyrir ferðamenn. Þess vegna vinni Isavia náið með Íslandsstofu í sínu markaðsstarfi. Þá hafi Inspired by Iceland-verkefnið einnig nýst vel í markaðsstarfinu.

„Við fáum ekki flugfélag til að koma hingað af því að við erum með svo góða flugbraut heldur er lykilatriði að markaðssetja Íslands sem áfangastað,“ segir Elín. „Meðal þess sem við höfum gert er að vera með sérstakt hvatakerfi. Við bjóðum flugfélögum sem hafa áhuga á að hefja áætlunarflug til Íslands samning um að þau bindi sig í þrjú ár gegn afslætti af lendingargjöldum. Svona samningar þekkjast víða í þessum geira.“

Samkvæmt samningnum fá flugfélög 100% afslátt af lendingargjöldum fyrsta veturinn og 75% afslátt fyrsta sumarið sem þau koma hingað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .