Þau flugfélög sem bjóða uppá ferðir til nýrra áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli komist hjá því borga lendinga- og farþegagjöld yfir vetrartímann. Yfir sumartímann fá þau 75% afslátt af fyrrnefndum gjöldum en afslátturinn fer svo stighækkandi næstu tvö ár.

Þetta kemur fram á vefnum túristi.is en hér er um að ræða nýja stefnu hjá Isavia (áður Flugstoðir) til að fjölga flugleiðunum frá Keflavík. Gerð er krafa um að ferðirnar séu að minnsta kosti tvær í viku.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við túristi.is að forsvarsmenn félagsins séu ánægðir með þá heilsársáherslu sem er í nýja kerfinu og það muni hjálpa við að lengja flugtímann á ákveðna áfangastaði og hefja flug yfir vetrartímann jafnvel strax næsta vetur.

Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir þetta vera jákvætt skref en muni ekki hafa nein áhrif á áætlanir félagsins fyrst um sinn. Sem kunnugt er hefur Iceland Express dregið verulega úr áætlun sinni og mun samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ekki fjölga ferðum eða bæta við nýjum áfangastöðum á þessu ári.

Fram kemur í umfjöllun um málið á túristi.is að af þeim stöðum sem flogið verður beint til frá Keflavík í ár eru aðeins tveir nýir, Denver og Lyon. Flug Icelandair til fyrrnefndu borgarinnar uppfyllir kröfur Isavia um fjölda ferða á viku og því ætti félagið rétt á afslætti. Flug Wow Air til Lyon uppfyllir hins vegar ekki skilyrði um fjölda flugferða á viku því aðeins verður flogið einu sinni í viku.

Leifsstöð
Leifsstöð
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)