„Þetta er ekkert flókin formúla en kannski færri sem fara eftir henni,“ segir Ýmir Örn Finnbogason, fjármálastjóri tölvuleikjaframleiðandans Plain Vanilla Games. Fyrirtækið leggur mikið upp úr því að vinnustaðurinn sé skemmtilegur, andinn góður og markmiðið er að fyrirtækið verði skemmtilegasti vinnustaður í heimi.

Ýmir Örn segir nokkra þætti mikilvæga þegar gera á vinnustað skemmtilegan. „Í fyrsta lagi þarf starfsumhverfið að vera metnaðarfullt og að fólki finnist eins og það sé að keppa að einhverju saman. Síðan eru það tæknilegir þættir eins og góð vinnuaðstaða og góður tækjabúnaður. En það sem er kannski erfiðast að ná fram er góður andi, þannig að fólki líði vel og langi til að vera í vinnunni," segir Ymir Örn og bætir við að til að stuðla að góðum vinnuanda sé mikilvægt að leyfa fólki að skipuleggja sig sjálft og hafa skýr markmið um hvað þurfi að gera. Þá sé mikilvægt að hafa frjálsari vinnutíma á milli álagspunkta.

Margt fleira er gert til að tryggja að starfsfólk uni sér vel í vinnunni. Allir starfsmenn Plain Vanilla Games fá allar þær Apple-vörur sem þeir þurfa á að halda (tölvu, síma og fleira), ókeypis líkamsræktarkort, kókómjólk og ávexti að vild í vinnunni og líka sveigjanlegan vinnutíma og sveigjanlegt orlof. Kokkur frá Argentínu steikhúsi eldar hádegismat ofan í starfsfólkið fjóra daga í viku en á föstudögum er farið í hádegismat á veitingastað í boði fyrirtækisins.

Nánar er talað við Ými Örn Finnbogason, fjármálastjóra hjá Plain Vanilla Games, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .