Netverslanir vestanhafs hafa lokkað til sín viðskiptavini með sérstökum tilboðsdegi sem kallast á ensku cyber monday. Dagurinn hefur skilað netverslunum umtalsverðri innkomu rétt fyrir jólin, en viðskiptin hafa oftast nær farið fram í gegnum fartölvur og borðtölvur.

Snjallsímavæðingin hefur þó haft umtalsverð áhrif á smásölu á netinu, en í ár keyptu bandarískir neytendur fyrir ríflega 1,07 milljarða Bandaríkja og það með símum. Aukningin nemur um 34% milli ára samkvæmt Adobe Digital Insights.

Netverslanir hafa nú verið að fjárfesta í smáforritum og sérstökum viðmótum, sem eiga að bæta upplifun neytenda í snjallsímunum. Þessi fjárfesting virðist því vera að skila sér, ef marka má aukninguna.

Heilt yfir skilaði cyber monday tilboðsdagurinn netverslunum 3,45 milljörðum. Um er að ræða 12,1% aukningu milli ára. Sérfræðingar telja þessa þróun ekki á enda og telja sumir hverjir að hefðbundin verslun verði nánast aldrei sú sama.