Félag atvinnurekenda kallar nýskipaðan starfshóp sem á að endurskoða búvörusamningana „bandalag um óbreytt ástand,“ í frétt sinni um málið.

Gunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra skipaði formann hópsins og eiga Bændasamtökin og ríkið, átta fulltrúa í tólf manna starfshópi. Hópinn má sjá hér .

Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í fréttinni, að gengið hafi verið bak loforðum sem stjórnarmeirihlutinn gaf þegar hann vildi láta í það skína að hann sæktist eftir þjóðarsamtali og þjóðarsátt um stefnuna í landbúnaðarmálum.

„Í stað þess að kalla eftir öllum sjónarmiðum er gagnrýnendum landbúnaðarkerfisins, sem hvað eindregnast hafa talað fyrir auknu frelsi og samkeppni í greininni, haldið utan við þjóðarsamtalið. Tök viðsemjendanna í búvörusamningunum, ríkisins og bænda, á umræðunni eru hert. Þarna er greinilega verið að búa til bandalag um óbreytt ástand,“ er haft eftir Ólafi.