Í morgun lenti Herkúles-flugvél bandarísku strandgæslunnar (C-130J) á Reykjavíkurflugvelli en vélin er hingað komin til að taka þátt í björgunaræfingu sem fram fer í vikunni með Landhelgisgæslu Íslands.  Æfð verður björgun farþega skemmtiferðaskips sem lendir í áföllum á hafinu milli Íslands og Grænlands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þar kemur fram að íslenska leitar- og björgunarsvæðið nær upp að austurströnd Grænlands og suður undir Hvarf.  Landhelgisgæslan ber ábyrgð á stjórnun björgunaraðgerða þegar skip lenda í áföllum á þessu hafsvæði en óskar aðstoðar annarra ríkja við leit og björgun þegar þörf krefur.

Söguþráður æfingarinnar sem fram fer í vikunni er að skemmtiferðaskip sem er á siglingu 100 sjómílur austur af Hvarfi sendir út neyðarkall eftir að hafa rekist á ísjaka og leki kemur að því.

Landhelgisgæslan gerir ráðstafanir með sínum eigin skipum og flugvélum en jafnframt óskar hún eftir aðstoð frá samstarfsstofnunum sínum við norðanvert Atlantshafið og nærliggjandi skipum.  Herkúles-flugvél bandarísku strandgæslunnar er á þeim tíma í ískönnunarleiðangri á hafinu milli Labrador og Grænlands og býður fram aðstoð.

Í tilkynningunni kemur fram að samstarf strandgæslustofnana við norðanvert Atlantshaf er náið og gott. Fyrir u.þ.b. ári síðan voru stofnuð formleg samtök 18 strandgæslustofnana á svæðinu sem kallast North Atlantic Coast Guard Forum.

„Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, starfsfólk ráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar hafa lagt áherslu á að efla þetta samstarf og lagt vinnu í það og er afrakstur þess m.a. sameiginlega björgunaræfingin sem fram fer í vikunni,“ segir í tilkynningunni.