Búist er við að gengið verði frá sölunni í síðasta lagi 5. september næstkomandi og munu þá nýir eigendur taka við rekstrinum. Pétur Þ. Óskarsson, talsmaður Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), staðfestir þetta við Viðskiptablaðið. Kaupendur eru asíska sjávarútvegsfyrirtækið Pacific Andes og fjárfestingasjóðurinn Klonastra, sem er með heimilsfesti á Kýpur. Pacific Andes mun eiga 19% í fyrirtækjunum Pickenpack, Pickenpack Gelmer og Hussman & Hahn, og fjárfestingasjóðurinn Klonastra heldur um 81% hlutafjár. FSÍ gefur ekki upp kaupverð en það felst í yfirtöku skulda. Pétur bendir á að starfsemin í Þýskalandi og Frakklandi hafi verið gríðarlega skuldsett.

Sagðir tefja ferlið

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er kaupverð á bilinu 80-85 milljónir evra, sem eru á bilinu 13 til 14 milljarðar króna. Í frétt á vef IntraFish sem birtist í gær kemur fram að Pacific Andes og Klonastra hafi tryggt sér 90 milljóna evra brúarlán hjá Rabobank til að fjármagna kaupin. Í annarri frétt IntraFish frá 30. ágúst sl. segir frá háværum orðrómi um að Pacific Andes tefji frágang yfirtökunnar á evrópsku starfseminni og reyni að fjármagna kaup á starfsemi Icelandic í Bandaríkjunum einnig. Bank of America Merrill Lynch sér um söluferli þess hlutar. Pétur segir ferlið á sölu bandaríska hluta Icelandic ganga vel og þar séu fjölmargir áhugasamir kaupendur að skoða starfsemina. Vonir standi til að geta greint frá niðurstöðu þar um síðar í haust. Hann þvertekur fyrir að starfsemin í Evrópu, sem Pacific Andes og Klonastra eru nú að kaupa, og starfsemin í Bandaríkjunum séu seld saman eða í tengdum viðskiptum. Ákveðið hafi verið að halda verkefnunum aðskildum, enda reksturinn og afkoman ólík.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.