Matís átti von á 240 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu (ESB) í formi IPA-styrkja vegna þriggja verkefna sem stofnunin sótti um á síðasta ári. Vegna nýlegrar ákvörðunar ESB um að ekki verði undirritaðir fleiri samningar um svokallaða IPA-styrki frá sambandinu liggur fyrir að ekkert verður að styrkveitingunni til Matís. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, segir ákvörðunina afskaplega bagalega fyrir starfsemi fyrirtækisins og markmið um aukna verðmætasköpun í kringum matvælaframleiðslu. Verkefnin þrú sem Matís átti að fá styrki vegna snúa að þörungaræktun á Suðurlandi, vöruþróun með uppsjávarfisk á Austurlandi og vistvænni nýsköpun á Vestfjörðum.

Sveinn segir mikla vinnu hafa verið lagða í undirbúning þessara verkefna. Undirbúningur hefur staðið yfir í ár. Sveinn segist ekki vera bjartsýnn á að hægt verði að keyra verkefnin áfram í óbreyttri mynd án styrkjanna en ætlar þó ekki að gefast upp.