Pétur Guðgeirsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefur neitað að leysa lögmennina Gest Jónsson og Ragnar H. Hall frá störfum sem verjendur Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, og Ólafs Ólafssonar. Þetta þýðir að aðalmeðferð í máli embættis sérstaks saksóknara gegn sakborningum í Al Thani-málinu hefst samkvæmt dagskrá síðar í vikunni.

Þeir Gestur og Ragnar tilkynntu á blaðamannafundi í dag að þeir ætli að hætta störfum sem verjendur þeirra Sigurðar og Ólafs á þeim forsendum að réttur skjólstæðinga þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins fyrir dóma hafi ítrekað verið þverbrotinn. Steininn hafi tekið úr á fimmtudag í síðustu viku þegar Hæstiréttur kvað upp dóma í tveimur kærumálum skjólstæðinga þeirra, m.a. kröfu þeirra um að fresta málinu á meðan þeir færu yfir ný gögn fyrir aðalmeðferð málsins.

Hörður Felix Harðarson , verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, tók undir gagnrýni verjandanna í samtali við vb.is og sagði reglur hafa verið brotnar.

Hörður, Gestur og Ragnar vinna allir á sömu lögmannsstofunni, þ.e. Mörkinni lögmannsstofu.