Hrund Rudolfsdóttir hefur starfað sem forstjóri Veritas frá árinu 2013 en áður hafði hún setið í stjórn fyrirtækisins og starfað hjá Lyf og heilsu í mörg ár. Hún er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og deilir því með lesendum Viðskiptablaðsins að hún hafi miklar áhyggjur af þróun heilbrigðismála á Íslandi.

Hver er þín sýn á íslenskt heilbrigðiskerfi í dag?

„Ég hef miklar áhyggjur af þróun heilbrigðismála á Íslandi. Það er alveg ljóst hvað varðar okkar sérsvið að við erum komin töluvert langt á eftir þeim þjóðum sem okkur er tamt að bera okkur saman við hvað varðar innleiðingu og notkun á nýjum lyfjum. Sem dæmi má benda á að fyrir tveimur árum var gerð könnun á notkun krabbameinslyfja sem leiddi í ljós að við vorum um það bil 3-4 árum á eftir okkar samanburðarþjóðum og síðan þá hefur lítið gerst í þeim málaflokki. Þetta þýðir að í dag er hluti af sjúklingum að fá krabbameinsmeðferð sem er ekki í samræmi við það besta og nýjasta í Skandinavíu. Þetta eru mjög alvarleg skilboð sem við erum að senda ungu þjóðinni sem í dag á auðvelt með að velja sér búsetu þar sem henni finnst best að sér hlúð. Við sem þjóð þurfum nauðsynlega að setjast niður og ræða það hvort þetta sé forgangsröðunin sem við viljum hafa í okkar samfélagi. Við heyrum líka á hverjum degi fréttir frá Landspítalanum hvað varðar tækjakost og almennt ásigkomulag spítalans, sem og kjör og aðbúnað starfsmanna. Helst er ástandið gott á Barnaspítalanum en þar er tækjakostur meira og minna keyptur fyrir gjafafé. Það er mjög óeðlilegt að spítalinn sé rekinn áfram að tilstuðlan óþreytandi góðgerðasamtaka eins og Hringskvenna að svo stóru leyti og til langs tíma.“

Hrund segir að þrátt fyrir að skortur á fjármagni sé vissulega stærsta vandamálið þá þurfi þjóðin jafnframt að átta sig á því hvernig hún vill forgangsraða í samfélaginu. „Heilbrigðismál hafa orðið eftir á, sem var kannski eðlilegt í kreppunni þegar við þurftum að herða sultarólina. Nú held ég hins vegar að við getum öll verið sammála um að kreppunni sé lokið og þá er spurning hvernig við eigum að forgangsraða. Við sem höfum starfað við þennan geira höfum séð þetta mjög skýrt undanfarin 3-4 ár og við höfum haft af þessu áhyggjur, þær áhyggjur hafa hins vegar ekki alveg náð upp á yfirborðið. Fólk hefur ekki alveg áttað sig á því hvað þetta þýðir enda er um að ræða mjög hæga þróun. Sem betur fer varð breyting á í vetur og raddir þeirra sem sáu stöðuna eins og hún er í raun og veru fóru að verða mjög háar og eru nú að ná eyrum almennings og pólitíkusa. Ég bind því miklar vonir við að breytingar séu fram undan í þessum málaflokki,“ segir Hrund.

Þannig að þú ert bjartsýn á framtíðina?

„Já, ég bara verð að vera það. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé samfélagið sem við viljum búa í. Ætlum við í alvöru að sætta okkur við það að vera Albanía norðursins? Ég held að það sé ljóst að við viljum það ekki og við stefnum í það góða stöðu þjóðarbúið að við eigum að gera betur og þetta er eitthvað sem  við eigum ekki að sætta okkur við.“

Vill ekki nota orðið einkavæðingu

Sérðu fyrir þér að frekari einkavæðing í heilbrigðisgeiranum sé einhvers konar lausn á þessum vanda? „Ég vil ekki nota orðið einkavæðing. Ég held við getum í mjög litlum mæli sætt okkur við raunverulega einkavæðingu í heilbrigðismálum en þetta snýst þó allt um hvernig þú skilgreinir orðið. Ég held hins vegar að einkaframtak, í samvinnu við hið opinbera, geti verið lausnin. Þannig á hið opinbera að ákvarða þá þjónustu og það þjónustustig sem það vill veita í tilteknum flokkum. Hver hins vegar veitir þessa þjónustu, það er allt annað mál, og þar finnst mér alveg koma til greina að einkaaðilar komist að í meira mæli en verið hefur. Ég held almennt að við séum þannig samfélag að við viljum tryggja grunnþjónustu til allra, sem er gott og gilt. En þá þurfum við líka að gefa í. Það má ekki einfaldlega afgreiða málin með því að segja að við höfum ekki efni á tiltekinni þjónustu og þá megi enginn fá hana. Það er versta mögulega staðan fyrir alla. Ég vona að með auknu fjármagni þá geti það gerst að einkaaðilar komi frekar að borðinu við að veita þessa þjónustu, því ég hef trú á að þannig fáum við hagstæðar lausnir.“

Viðtalið við Hrund má nálgast í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir hlekknum Tölublöð.