Búast má við því að ríkisstjórnin boði lagasetningu um frestun verkfalla nái Bandalag háskólamanna (BHM) og hjúkrunarfræðingar ekki samningum við ríkið í dag. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að samninganefndum BHM og hjúkrunarfræðinga sé orðið ljóst að ríkið muni ekki semja um hækkanir launataxta umfram það sem taxtar hækkuðu í samningum á almennum vinnumarkaði. Einnig geri samninganefndirnar sér grein fyrir að lagasetning vofi yfir þeirra umbjóðendum og munu af þeim sökum hafa orðið allnokkrar áherslubreytingar í viðræðunum.

Með frestun verkfallanna yrði samningsaðilum veittur ákveðinn frestur til að ná niðurstöðu en náist hún ekki verður deilunum að líkindum vísað í gerðardóm. Samkvæmt Morgunblaðinu er ríkisstjórnin samstíga í þeirri afstöðu að verkföllunum verði að ljúka þótt lagasetning um frestun sé ekki talin góður kostur.