Fjölmargir spenntir íbúar í Peking fengu ekki að kaupa iPhone, snjallsíma Apple, efttir að hafa beðið fyrir utan verslun þar í borg í heila nótt. Stjórnendur verslunarinnar treystu sér ekki til þess að opna um morguninn. Þegar ætluðum kaupendum var greint frá að engir símar yrðu seldir brutust út slagsmál.

Financial Times greinir frá í dag og segir að svipaða sögu sé að segja frá hegðun neytendanna og þegar iPad 2 spjaldtölva var sett í sölu.

Nýjasta gerðin af snjallsímanum, iPhone 4S, er þegar uppseld í Kína. Talsmaður Apple í Kína segir að því miður hafi ekki verið hægt að opna verslunina í Peking. Það hefði ógnað öryggi bæði kúnna og starfsfólks. Vegna þessa verði síminn ekki seldur í Peking og Sjanghæ á næstunni. Financial Times bendir þó á að Kínverjar geti enn verslað sér eintak í gegnum netið.