Umsókn fyrirtækisins Iceland Resources þess efnis að fyrirtækið fengi framkvæmdaleyfi til gulleitar, var hafnað af fulltrúum Mosfellsbæjar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Vildi fyrirtækið framkvæma rannsóknir á magni gulls í bergi í Þormóðsdal.

Haft er eftir Bryndísi Haraldsdóttur, formanni bæjarstjórnar í Mosfellsbæ, að mat sérfræðinga sé að ekki sé hægt að veita leyfi án þess að það byggist á aðalskipulagi eða deiliskipulagi og var slíkt leyfi ekki til staðar í þessu tilviki.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem borað hefur verið eftir gulli í Þormóðsdal, en síðast var það gert árið 2006. Síðan þá hafa verið gerðar breytingar á skipulagslögum. Segir Bryndís einnig að stefna bæjarins væri að loka námum og ef að þetta ætti að fara í gegn þá þyrfti að breyta aðalskipulagi.

Framkvæmdastjóri Iceland Resources, Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, telur þetta ekki mikið áfall fyrir fyrirtækið, þar sem að hann telur að þær framkvæmdir sem fyrirtækið vill fara í á þessu stigi þurfi ekki að vera hluti af deiliskipulagi. Hann telur þetta einungis eina hindrun af mörgum í gullleitinni.