Hæstiréttur Íslands staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna beiðni lögmanna um að fá matsmann til að svara spurningum um verðtryggingu og vísitölu neysluverðs.

Ein af þeim spurningum sem óskað var eftir að matsmaður svaraði var hvernig vísitala neysluverðs væri nákvæmlega reiknuð út.

Það voru lögmenn Sævars Jóns Gunnarsson sem óskuðu eftir að fá matsmann fyrir dóm en Sævar Jón stendur í málaferlum við Landsbankann út af verðtryggðu neytendaláni. Málið fór fyrir EFTA-dómstólinn sem í lok nóvember komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að ólögmætt væri að miða við 0% verðbólgu í lánssamningum.

Málflutningur í máli Sævars Jón fyrir Héraðsdómi mun væntanlega hefjast á næstu vikum.