Þeir sem sæti áttu í rannsóknarnefnd Alþingis og skiluðu frá sér skýrslu um starfsemi Íbúðalánasjóðs mega ekki tjá sig frekar um skýrsluna lögum samkvæmt enda er henni ekki ætlað að taka þátt í opinberri umræðu. Þar undir falla viðbrögð við gagnrýni á skýrsluna, samkvæmt þeim svörum sem vb.is fékk þegar leitað var viðbragða við gagnrýni á efni skýrslunnar. Nefndarmenn hafa einu sinni tjáð sig um skýrsluna. Það var á blaðamannafundi á þriðjudag fyrir viku þegar skýrslunni var skilað.

Guðmundur Bjarnason , fyrrverandi forstjóri Íbúðalánasjóðs, gagnrýndi skýrsluna harkalega í gær og sagði hana m.a. uppfulla af slúðri og Gróusögum og að skýrsluhöfundar hafi sett í henni fram órökstuddar og ósannar dylgjur. Þá sagði Guðmundur höfunda skýrslunnar hafa haft mjög einkennilega nálgun á mörg veigamikil mál og sé hún ótrúverðug. Hann kom m.a. inn á það tap sem nefndin áætlar að Íbúðalánasjóður hafi orðið fyrir og sagði það mun minna.

Fleiri hafa sömuleiðis gagnrýnt skýrsluna, svo sem stjórn Íbúðalánasjóðs, sem sömuleiðis dregur úr fullyrðingum um tap hans. Þá hefur Hallur Magnússon , fyrrverandi sviðsstjóri þróunardeildar Íbúðalánasjóðs gagnrýnt hana. Hann sagði fyrir síðustu helgi rangfærslur í skýrslunni slíkar að sjái þess ekki annars kost en að fara í meiðyrðamál gegn rannsóknarnefndinni.