Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) skilaði rökstuddu áliti um það að íslenska ríkið bryti á EES-samningnum vegna innflutningstakmarkanna á eggjum og mjólk. Þetta kom fram á vef Viðskiptablaðsins í gær.

Félag atvinnurekenda fagnar niðurstöðu ESA. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Félags atvinnurekenda. „FA lítur svo á að um tæknilega viðskiptahindrun sé að ræða, rétt eins og hömlur ríkisins á innflutningi á fersku kjöti. Hömlurnar séu við lýði til að vernda innlenda framleiðslu fyrir samkeppni, ekki til verndar neytendum“ kemur fram í tilkynningunni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, telur að „rétt eins og í kjötmálinu er ekki eftir neinu að bíða að aflétta þessum viðskiptahindrunum varðandi egg og mjólk.“

Við þetta bætir hann: „Þær vörur sem hér um ræðir hafa undirgengist strangt heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkjunum. Það hefur lengi legið fyrir að þessar reglur væru hluti af EES-samningnum og Ísland samdi ekki um undanþágu frá þeim á sínum tíma. Með afnámi innflutningshamla stendur neytendum til boða meira úrval af ferskri gæðavöru. Með því að draga lappirnar þrátt fyrir álit ESA og dóma EFTA-dómstólsins eru íslensk stjórnvöld eingöngu að kaupa sér tíma og hafa þau gæði af neytendum.“