Íslenskir frumkvöðlar sem standa að vörunni Data smoothie voru á meðal sigurvegara í Seedcamp sem fram fór í Lundúnum vikuna 2. til 6. febrúar sl. Mörghundruð fyrirtæki sóttu um að fá taka þátt og voru 22 teymi valin til þess að keppa um að fá fjárfestingu frá Seedcamp, og fór svo á endanum að fjárfest var í íslenska teyminu.

Varan heitir Datasmoothie og er hugbúnaður sem er notaður við úrvinnslu gagna, framkvæmir tölfræðilega útreikninga og gerir notendum kleift að útbúa gagnvirkar skýrslur með niðurstöðum sínum á auðveldan hátt. Stofnendur fyrirtækisins eru þeir Agnar Sigmarsson, Geir Freysson og Birgir Hrafn Sigurðsson.

„Margir kannast við að hafa notast við hugbúnaðinn SPSS í háskóla og jafnvel menntaskóla. SPSS er gamall hugbúnaður sem hefur lítið þróast frá því hann kom fyrst út. Við settum okkur það markmið að búa til skilvirkari og mun betri útgáfu af honum og byrja á að bjóða markaðsrannsóknafyrirtækjum til kaups,“ segir Geir.

Data Smoothie hefur verið í þróun í um sextán mánuði og hefur teymið unnið með breska markaðsrannsóknafyrirtækinu YouGov að þróun vörunnar.