Forsvarsmönnum Stálpípuverksmiðjunnar í Helguvík hefur verið gefinn lokafrestur út mánuðinn til að klára fjármögnun verksmiðjunnar. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær. Liðin eru rúm þrjú ár frá því forsvarsmenn International Pipe and Tube og Árni Sigfússon bæjarstjóri skrifuðu undir samninga um byggingu verksmiðjunnar í Helguvík, að viðstöddum iðnaðarráðherra.

Í Víkurfréttum er bent á að forstjóri fyrirtækisins hefur frá upphafi verið bjartsýnn á að fjármögnun verksmiðjunnar takist. Grunnur lóðar stálpípuverksmiðjunnar í Helguvík var tilbúinn fyrir rúmu ári síðan og gerðu fyrstu áætlanir ráð fyrir að framkvæmdir hæfust þá þegar. Ennþá eru framkvæmdir ekki hafnar á lóðinni og vinnur fyrirtækið enn að fjármögnun. Pétur Jóhannsson, hafnarstjóri Reykjanesbæjar, segir í viðtali við Víkurfréttir að búið sé að velja verktaka og einnig sé búið að ljúka fjármögnun. Aðspurður um tafirnar segir hann að þær séu eðlilegar þar sem gengi dollarans hefur breyst á undanförnum misserum. Hann segir einnig að tíminn sé langur og að þetta sé langur tími að bíða, eða þrjú ár en benti jafnframt á að það sé svipaður tími og tók að reisa svipaða verksmiðju í Eistlandi.

Heildarkostnaður við byggingu stálpípuverksmiðjunnar er áætlaður um 85 milljónir dala eða um 5,6 milljarðar íslenskra króna. Verksmiðjan skiptir miklu máli fyrir Suðurnes en gert er ráð fyrir að þar muni starfa á milli 200 til 240 manns. Í áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að verksmiðjan verði um 18 þúsund fermetrar að stærð og að þar verði árlega framleidd um 175 þúsund tonn af stálpípum.

Pétur sagðí í viðtali við Víkurfréttir vera bjartsýnn á að verksmiðjan rísi og nú sé komið að leiðarlokum.