Skoskir vindmyllubúgarðar fengu um 5,5 milljónir punda, eða andvirði 853 milljóna króna fyrir að stöðva raforkuframleiðslu í mánuðinum eftir að sterkir vindar framleiddu meira rafmagn en hægt var að neyta.

Báðu framleiðendur um að draga úr framleiðslu

Óvenjusterkir sumarvindar, sem náðu allt að 185 kílómetra hraða á klukkustund, fóru yfir skosku hálöndin þann 7. ágúst síðastliðinn, sem olli því að breska landsnetið þurfti að biðja framleiðendur að draga úr framleiðslu.

Olli veðrið því að stjórnendur raforkukerfis landsins þurftu að láta af hendi metgreiðslur sem námu 7,3 milljónum punda.

Offramleiðsla endurnýjanlegra orkugjafa

„Þetta var hinn fullkomni stormur, mjög vindasamt, mjög sólríkt, en ekkert svo heitt,“ sagði Claire Spedding framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu stödd í London.

Mikil aukning endurnýjanlegra orkugjafa hefur valdið því að á sérlega vindasömum og sólríkum dögum hefur orðið offramleiðsla orku víða um veröld.

Borgar breska landsnetið framleiðendum fyrir að stöðva framleiðslu til að ná jafnvægi á mörkuðunum. Jafnframt greiðir fyrirtækið fyrir aukna framleiðslu þegar eftirspurnin eykst hratt.

Fengið 255 milljón punda fyrir að framleiða ekki

Þann 7. ágúst féll eftirspurn í sögulegt lágmark vegna kalds veður sem olli minni eftirspurn eftir loftræstingu, á sama tíma og stór hluti þjóðarinnar er á ferðalögum vegna sumarfría.

Síðan greiðslur til endurnýjanlegra orkugjafa hófst árið 2010 hafa vindmyllur fengið um 255 milljón punda greiðslur fyrir að framleiða ekki rafmagn samkvæmt tölum frá landsneti Bretlands.

Landsnetið fjárfestir nú fyrir um 1 milljón pund til að tengja betur milli Scottish Power Ltd svo orka flæði betur suður til Englands, en tengingin verður komin í gagnið sumarið 2017.