Hart var sótt að Sævari Helga Bragasyni og Andra Snæ Magnasyni af grænkerum á samfélagsmiðlinum Twitter um helgina. Sævar Helgi og Andri Snær, sem hafa látið að sér kveða í umhverfisverndarmálum á síðustu árum, voru gagnrýndir fyrir að vera ekki sjálfir grænkerar og leggja ekki nógu mikla áherslu á kjötlaust mataræði.

Twitter notandinn Helga Lilja sagðist hafa hlýtt á fyrirlestra frá þeim í fyrra þar sem þeir hafi lítið komið inn á að minnka ætti kjötneyslu.

Sævar Helgi svaraði fyrir sig og benti á að um 5% af gróðurhúsalofttegundum kæmu til af dýrum sem beitt væri í landbúnaði. Það myndi því ekki duga til eitt og sér að hætta allri kjötneyslu þó það myndi sannarlega hjálpa til.

Sitt sýnist hverjum

Í kjölfarið var Sævar Helgi sakaður um að birta villandi tölfræði, gera lítið úr framlagi þeirra til umhverfis- og dýraverndar sem hefðu ákveðið að hætta að borða kjöt. Trúverðugleiki hans hefði hrapaði með því að hann væri ekki grænmetisæta.

Andri Snær og Sævar Helgi fengu þó einnig stuðningsyfirlýsingar vegna málsins.

Elín Björk Jónasdóttir, fagstjóri almennar veðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, tók undir með Sævari Helga og benti á að gerast grænkeri og hætta að fljúga dugi ekki til eitt og sér. „Þessi ofuráhersla á kjötneyslu og flug hefur nefnilega bjagað umræðuna talsvert síðustu ár. Einstaklingsframtak  skiptir gríðarmiklu máli, en kerfisbreytingar stærstu mengunarvalda meira,“ segir Elín Björg.

Hörður Ágústsson, eignandi Maclands og tónlistarkonan Una Stef voru meðal þeirra sem þökkuðu þeim fyrir sitt framlag til umhverfisverndarmála.

Kaupir ekki inn kjöt

Þá sagði Sævar Helgi að eftir sjónvarpsþættina Hvað höfum við gert á RÚV í vetur hafi hann aðallega fengið kvartanir frá tveimur hópum: „Þeim sem fannst við ekki tala nóg um kjöt og þeim sem fannst við ekki tala nóg um kapítalismann. Hvort tveggja svo sem alveg réttmætt að einhverju leyti,“ sagði Sævar Helgi.

Sævar Helgi, benti þó á undir lok umræðunnar að hann kaupi aldrei inn kjöt á sínu heimili. „Hér er kjöt aldrei í matinn því vitum vel að eitt það besta sem einstaklingar geta gert er að draga úr neyslu yfir allt sviðið. Fyrir utan að tala um loftslagsmál og kjósa fólk sem þorir að gera stærstu kerfisbreytingarnar“

Gamall brandari um trotskýista

Aðrir netverjar sögðu málið einna helst til marks um eilífan klofning vinstri manna. Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá, sá spaugilega hlið á málinu og rifjaði upp gamlan brandara um trotskýista.