Kauprétturinn á um 3,2 milljónum hluta, sem stjórn Marel ákvað að veita tíu yfirmönnum í félaginu miðast við grunnverðið 2,779 evrur á hlut, svo heildarvirði hlutanna eru tæpar 9 milljónir evra eða um milljarður íslenskra króna, eða 1.007.732.096 krónur.

Ávinnslutími kaupréttarins verður þrjú ár svo kaupréttarhafar geta nýtt hann fyrst eftir birtingu fyrsta ársfjórðungsuppgjörs árið 2020, og síðan tvisvar á ári, í apríl og október þangað til samningurinn rennur út í lok árs 2021.

Kaupréttarhafar þurfa jafnframt að kaupa hlutabréf í Marel fyrir því sem nemur fjárhæð hreins hagnaðar af kaupréttinum þegar skattar hafa verið dregnir frá og halda þeim bréfum til starfsloka hjá Marel.

„Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Marel hf. hefur veitt starfsmönnum sínum nemur nú alls 11,8 milljónum evra, sem nemur um 1,6% hlutafjár í félaginu, og er þá meðtalin þessi nýja úthlutun kauprétta," segir í tilkynningunni um kaupréttinn.

„Heildarkostnaður félagsins vegna nýju samninganna á næstu þremur árum er áætlaður um 1,7 milljónir evra og er þá byggt á reiknilíkani Black-Scholes."

Kauprétturinn skiptist þannig:

  • Árni Oddur Þórðarson, forstjóri, fær 600 þúsund hluti í nýjan kauprétt, en fyrir á hann kauprétt að 360 þúsund hlutum.
  • Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri, fær 400 þúsund hluti, en fyrir á hún kauprétt að 725 þúsund hlutum.
  • Árni Sigurðsson, yfirmaður, fær 400 þúsund hluti, en fyrir á hann kauprétt að 605 þúsund hlutum.
  • Andon de Weerd, yfirmaður, fær 300 þúsund hluti, en fyrir á hann rétt á 731 þúsund hlutum.
  • Sigurður Ólason, fær 200 þúsund hluti, átti fyrir rétt að 605 þúsund hlutum
  • Jesper Hjortshøj, fær 200 þúsund hluti, átti fyrir rétt að 12 þúsund hlutum.
  • Davíð Freyr Oddsson, yfirmaður, fær 200 þúsund hluti, átti fyrir rétt á 665 þúsund hlutum.
  • Paul van Warmerdam, yfirmaður, fær 200 þúsund hluti, átti fyrir rétt á 665 þúsund hlutum.
  • Pétur Guðjónsson, yfirmaður, fær 200 þúsund hluti, átti fyrir rétt á 920 þúsund hlutum.
  • Viðar Erlingsson, yfirmaður, fær 200 þúsund hluti, átti fyrir rétt á 725 þúsund hlutum.