*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 28. maí 2021 11:48

Fá kauprétti að 3,8% hlutafjár Origo

Allir átta framkvæmdastjórar Origo fá úthlutað krauprétti að 930 þúsund hlutum í félaginu hver um sig.

Ritstjórn
Jón Björnsson, forstjóri Origo
Aðsend mynd

Stjórn Origo ákvað á miðvikudaginn síðasta að veita tilteknum lykilstarfsmönnum félagsins kauprétti að allt að 16,5 milljónum hluta, eða um 3,8% hlutafjár, í félaginu. „Kaupréttarsamningarnir eru veittir í því skyni að samtvinna hagsmuni félagsins og lykilstarfsmanna til lengri tíma,“ segir í tilkynningu félagsins.

Ávinnslutími er þrjú til fimm ár frá úthlutun en innlausnartímabil skal vera þegar í stað eftir ávinnslutíma eða innan árs þaðan í frá. Innlausnarverð kaupréttanna er 51,7 krónur á hlut, í samræmi við dagslokagengið á miðvikudaginn, en gengi félagsins stendur nú í 51,2 krónum.

Heildarkostnaður Origo vegna kaupréttarsamninganna er áætlaður um 175 milljónir króna byggt á reiknilíkani Black-Scholes.

Framkvæmdastjórn Origo mun fá úthlutað 7,44 milljónir hluta, eða um 1,7% af hlutafé félagsins. Allir átta framkvæmdastjórar Origo fá úthlutað 930 þúsund hluti hver um sig en til framkvæmdastjórnarinnar tilheyra (og núverandi hlutafjáreign þeirra innan sviga):

  • Jón Björnsson, forstjóri (560.000)
  • Gunnar Petersen, framkvæmdastjóri fjármála (585.860)
  • Dröfn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs (105.631)
  • Ingimar Guðjón Bjarnason, framkvæmdastjóri viðskiptalausna (299.609)
  • Hákon Sigurhansson, framkvæmdastjóri hugbúnaðalausna (281.950)
  • Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri þjónustulausna 
  • Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála
  • Gunnar Zöega, framkvæmdastjóri notendalausna (52.247)

Skilmálar kaupréttarsamninganna eru í samræmi við kaupréttarkerfi sem samþykkt var á aðalfundi Origo þann 6. mars 2020 og starfskjarastefnu sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 4. mars 2021. Samkvæmt starfskjarastefnunni er stjórn Origo heimilt að úthluta að hámarki 18.384.000 hlutum, sem jafngildir 4% af heildarhlutafé félagsins.

Fram kemur að almennt falli kaupréttirnir niður fyrir ávinnslutíma ef ráðningarsambandi kaupréttarhafa við félagið er slitið. Kaupréttarhafar skuldbinda sig meðan þeir starfa hjá félaginu til þess að halda a.m.k. 10% þeirra hluta sem þeir kaupa á grundvelli kaupréttar.

Stikkorð: Origo kaupréttir