Tap danska bankans FIH Erhvervsbanks hefur verið svo mikið eftir að hann komst í hendur nýrra eigenda að ólíklegt þykir að þeir muni greiða Seðlabanka Íslands svo mikið sem krónu í viðbót af seljendaláni sem þeir fengu í viðskiptunum. Þetta kemur fram á vef danska viðskiptablaðsins Börsen í dag.

Seðlabankinn tók FIH í fangið eftir að hann lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra í október árið 2008 með veði í bankanum. Þegar Seðlabankinn seldi FIH í september árið 2010 fyrir fimm milljarða danskra króna. Rúmur helmingur kaupverðsins, 1,9 milljarðar danskra króna, var staðgreiddur en 3,1 milljarður var veittur sem seljendalán. Samkvæmt lánaskilmálum mátti draga tap fram til byrjunar árs 2015 frá endurgreiðslu lánsins.

Í Börsen segir að afskriftir og útlánatap FIH hafi skilað því að seljendalánið hafi verið afskrifað að fullu í bókum bankans.