Ekki er unnt að aðskilja fyrirséðar þrengingar ferðaþjónustunnar frá efnahagslífinu í heild sinni. Ráðist veðrur í 1,5 milljarða króna markaðsátak til að markaðssetja Ísland þegar ferðaþjónustan á heimsvísu tekur við sér á ný. Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í umræðu um aðgerðir stjórnvalda vegna veirufaraldursins sem nú geisar.

„Ferðaþjónustan skapar allt að 40% útflutningstekna okkar sem samfélags og er um 8% vergrar landsframleiðslu. Fá lönd eru eins háð ferðaþjónustu og Ísland og því ekki hægt að tala um stöðu ferðaþjónustunnar annars vegar og stöðu efnahagslífsins hins vegar,“ sagði Þórdís.

Þá teygi ferðaþjónustan sig um alla kima samfélagsins og höggið nú mun því koma fram alls staðar í samfélaginu. Þó megi ekki missa sjónar á mikilvægasta markmiðinu sem sé að hægja á veirunni þannig útbreiðsla hennar fari ekki fram úr þolmörkum heilbrigðiskerfisins. Líkt og stærstur hluti þeirra þingmanna sem til máls tók þakkaði ráðherrann sóttvarnaryfirvöldum fyrir fumlaus og skynsamleg viðbrögð.

„Strax, fyrsta virka dag eftir að fyrsta smit greindist, kölluðum við saman stjórnstöð ferðamála. Á þeim fundi voru nefndar ýmsar hugmyndir, meðal annars afnám gistináttagjalds og markaðsátak fyrir greinina. Nú, viku síðar, hefur verið verið ákveðið að ráðast í þessar aðgerðir. Gjaldfrestur verður á opinberum gjöldum og gistináttagjald fellur niður tímabundið. Það mun skipta verulegu máli,“ sagði Þórdís.

Markaðsátak sé einnig á döfinni og undirbúningur þess á döfinni. Hið opinbera mun verja 1,5 milljarði króna í það og ferðaþjónustan sjálf ráðast í 3 milljarða króna söluátak. Með því sé stefnt að milda höggið af töpuðum tekjum um allt að 30-50 milljarða samanborið við það að gera ekki neitt.

„Það er hins vegar ljóst að umhverfið breytist klukkustund frá klukkustund og að ferðabann Bandaríkjanna setur stórt strik í reikninginn. Sumir vilja hampa alvöru leiðtogum en það er hlutverk alvöru leiðtoga að haga aðgerðum að ígrunduðu máli með heildarhagsmuni að leiðarljósi,“ segir Þórdís.

Ljóst sé að bannið muni draga úr ferðum frá Evrópu yfir haf. Bæði sökum þeirrar ásýndar sem Evrópa mun hafa vestanhafs og vegna skimunar sem Bandaríkjamenn þurfa að undirgangast við heimkomu.

„Bandarískir ferðamenn voru fjölmennasti hópur ferðafólks hér á landi í fyrra, tæp hálf milljón eða fjórðungur þeirra sem hingað kom. Í fyrra voru þeir 30 þúsund í mars og 26 þúsund í apríl. Þótt 30 þúsund ferðamenn sé aðeins 1,5% af heildarfjöldanum eru þetta miklir hagsmunir,“ sagði Þórdís. Einnig myndi þetta hafa áhrif á Icelandair vegna ferða félagsins með ferðamenn yfir hafið.

Þá eyða Bandaríkjamenn meira en meðalferðamaðurinn, eru um 16% örlátari en almennt gengur og gerist. Ljóst sé hins vegar að fyrirtæki sem hafa verið að þreyja þorrann yfir vetrarmánuðina, með von um betri tíð, sjái nú ekki fram á betri daga.

„Við vinnum nú að fleiri aðgerðum eins og það úrræði að starfsfólki standi til boða lægra starfshlutfall og atvinnuleysistryggingar brúi bilið. Við erum í aðstæðum sem kalla á afgerandi viðbrögð. Við þurfum að tefja útbreiðslu Covid-19 og gera það sem þarf til að standa vörð um þau okkar sem ráða síður við veiruna. Þá er mikilvægt efnahagslega að komast í gegnum þetta með góðum og fumlausum viðbrögðum þannig Ísland verði aftur áfangastaður ferðamanna þegar þetta gengur allt yfir,“ sagði Þórdís.