Innflutningsbann Rússa á flestum matvælum kemur hlutfallslega mun verr niður á Íslandi en flestum, ef ekki öllum öðrum vestrænum ríkjum. Þetta sýna tölur sem Viðskiptablaðið hefur tekið saman.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands seldi Ísland matvæli til Rússlands fyrir 24,4 milljarða króna árið 2014, aðallega sjávarafurðir. Sala matvæla til Rússlands hækkaði um fimm milljarða frá árinu 2013.

Nokkur af stærstu löndum Evrópu seldu Rússum mun minna af þeim matvælum sem nú eru bönnuð heldur en Ísland, meira að segja áður en innflutningsbannið var sett á. Árið 2013 seldu Bretar slík matvæli til Rússlands fyrir 7,8 milljarða króna, Ítalir fyrir 15,2 milljarða og Svíar fyrir einungis 1,5 milljarð íslenskra króna. Þjóðverjar, sem eru um 250 sinnum fleiri heldur en Íslendingar, seldu einungis um þrisvar sinnum meiri mat til Rússlands heldur en við.

Tölur rússneska tollsins, sem ofangreindir útreikningar byggjast á, innihalda upplýsingar um flest þau lönd sem innflutningsbann Rússa nær nú til. Af þeim löndum seldu Danir og Litháar mestan mat til Rússlands miðað við höfðatölu, eða fyrir rúmlega 11.000 íslenskar krónur á mann árið 2013. Þessar þjóðir komast hins vegar ekki með tærnar þar sem Íslendingar hafa hælana. Íslendingar seldu matvæli til Rússlands fyrir um 74.500 krónur á mann árið 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .