Stjórn Félags atvinnurekenda lýsir yfir miklum vonbrigðum með afstöðu ríkisstjórnarinnar að hún hafi ákveðið að lækka ekki tryggingargjald til að skapa forsendur fyrir áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í nýjum pistli sem birtist á heimasíðu FA.

Í pistlinum segir:

„Tryggingagjaldið var hækkað mikið til að standa undir bótagreiðslum vegna stóraukins atvinnuleysis eftir bankahrunið. Nú hefur atvinnuleysið snarminnkað og þá á að sjálfsögðu að lækka skattinn til samræmis í stað þess að taka tekjurnar af honum til annarra verkefna ríkisins.“

FA segir einnig að tryggingagjaldið sé ósanngjarn skattur, en það hækki eftir því sem starfsmenn eru fleiri og launakostnaður hækki. Það vinni þar með gegn því að fyrirtæki bæti við sig starfsmönnum og dregur úr getu þeirra til að standa undir launahækkunum.

„Lækkun tryggingagjaldsins er ein forsenda þess að varðveita megi þann frið og stöðugleika á vinnumarkaðnum sem um samdist fyrr á þessu ári.“