Bandaríska líftæknifyrirtækið Moderna væntir þess að tekjur af samningum um Covid-19 bóluefni verði í kringum 18,4 milljarða dala í ár. Greiningaraðilar höfðu spáð því að sala fyrirtækisins á bóluefninu yrði nær 11,2 milljörðum dala.

Moderna, sem hefur höfuðstöðvar í Boston, segir að bóluefnasalan geti enn aukist en viðræður standi yfir vegna aukinna pantanna fyrir árin 2021 og 2022. Lyfjaframleiðandinn Pfizer gerir ráð fyrir að tekjur af bóluefni sínu nemi 15 milljörðum dala í ár .

Bóluefni Moderna kostar þó meira en sprautur Pfizer, samkvæmt frétt Financial Times . Talið er að Moderna fái 25 dollara fyrir hvern skammt frá bandaríska ríkinu og á bilinu 32-37 dollara frá öðrum viðskiptavinum en verðið fari eftir stærð pantana. BioNTech og Pfizer bóluefnið er verðlagt í kringum 19 dollara á hvern skammt. Bóluefni beggja fyrirtæki krefjast tveggja skammta.

Stéphane Bancel, forstjóri Moderna, segir að aukin eftirspurn hafi verið eftir bóluefninu vegna 94,5% virkni þess sem sé töluvert hærra en hjá AstraZeneca og Johnson & Johnson.

Þótt fyrirtækið hafi haft trú á mRNA bóluefnum þá hafi þörfin fyrir reglulegri fjármögnun og nægjanlegu lausafjármagni takmarkað vaxtargetu fyrirtækisins. Kórónuveiran hefur þó sannað getu mRNA tækninnar.

Í lok janúar bárust fréttir um að bóluefni Moderna virki gegn afbrigðunum sem uppgötvuðust í Bretlandi og Suður-Afríku. Fyrirtækið greindi frá því fyrr í vikunni að framleiðsla væri hafin á sprautum sem miði sérstaklega gegn Suður-Afríska afbrigðinu.