Viðskiptavinir Landsbankans fá stærri hluta skulda sinna niðurfelldan en viðskiptavinir annarra banka. Ástæðan er sú að bankinn ákvað að gera betur við viðskiptavini sína í skuldaniðurfellingum sumarið 2011 en samkomulag á milli fjármálafyrirtækja og stjórnvalda gerði ráð fyrir. Fjallað er um málið í Kjarnanum í dag. Þar segir að kostnaður vegna þessara viðbótaraðgerða Landsbankans nemi um 25 milljörðum króna.

Kjarninn fjallar um skuldaniðurfellinguna og rifjar upp að í lok maí 2011 kynnti Landsbankinn þrískiptar aðgerðir. Sú fyrsta var lækkun fasteignaveðskulda niður í 110 prósent fasteignamats í stað verðmats sem var hjá hinum bönkunum. Önnur aðgerðin var að endurgreiða skilvirkum viðskiptavinum 20 prósent af vöxtum sem þeir greiddu frá 1. janúar 2009 til 30. apríl 2011. Að lokum voru skuldir umfram greiðslubyrði lækkaðar um að hámarki átta milljónir króna hjá hjónum og fjórar milljónir króna hjá einstaklingum.

Í Kjarnanum segir að þeir 25 milljarðar króna sem Landsbankinn færði viðskiptavinum sínum fyrir tæpum þremur árum muni ekki koma til frádráttar þegar viðskiptavinir hans sækja um skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar á næstu misserum. Þeir fá því tvöfalda niðurfellingu á meðan aðrir skuldaniðurfellingarþegar fá einfaldan umgang. Og þeir sem voru ekki með verðtryggð húsnæðislán fá ekkert.