Ekki virðast vera merki um bólumyndun á íslenskum hlutabréfamarkaði ef horft er á V/H hlutföll skráðra félaga í Kauphöllinni. V/H hlutfallið fæst með því að deila markaðsvirði félagsins með hagnaði þess, en í þessari greiningu er notast við V/H hlutföll sem miða við gögn frá síðustu fjórum ársfjórðungum (Q2 2016 til Q1 2017) og nálgast má á Keldunni.

V/H hlutfallið er einn af þeim mælikvörðum sem notaðir eru við verðmat fyrirtækja og gefur ákveðnar vísbendingar um hugarfar markaðarins í þeirra garð. Hærra V/H hlutfall þýðir að markaðsvirði fyrirtækis sé hærra í samræmi við hagnað þess. Hátt V/H hlutfall þýðir því gjarna að fjárfestar telji að hagnaður fyrirtækis eigi eftir að aukast á næstu árum. Það getur einnig þýtt að félagið sé ofmetið, þótt það þurfi alls ekki að vera ef mikil vaxtartækifæri eru til staðar. V/H hlutfallið eitt og sér er því ekki nóg til að verðmeta fyrirtæki en það getur gefið ýmsar vísbendingar.

Mismunandi þróun frá skráningu

Meirihluti þeirra 16 félaga sem eru á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur verið skráður á undanförnum árum. V/H hlutfall þeirra hefur í flestum tilfellum hækkað frá skráningu en einnig eru til dæmi um hið gagnstæða. Að vísu er hægara sagt en gert að meta hvert V/H hlutfall fyrirtækja var við skráningu þeirra, en í þessari greiningu er miðað við væntan hagnað þeirra árið sem þau voru skráð, útreiknaðan miðað við einfaldar forsendur sem byggja á skráningarlýsingum fyrirtækjanna og/eða ársreikningum. Þær tölur rímuðu oftast ágætlega við næstu birtu ársreikninga félaganna og gáfu betri mynd heldur en að miða einungis við síðustu birtu ársreikninga.

V/H hlutfallið hjá Icelandair Group hefur hækkað hlutfallslega mest frá „skráningu“, eða réttara sagt fjárhagslegri endurskipulagningu, sem fram fór í október 2010 þegar félagið var að hruni komið. Þá var V/H hlutfallið einungis 2,7 miðað við gengið 2,5 krónur á hlut en í vikubyrjun var hlutfallið tæplega 10. Það hefur því hækkað um tæp 270%. Hlutfallið var að vísu 13,4 þegar það var í hæstu hæðum í apríl í fyrra en verðhrun bréfanna í ársbyrjun 2017 hafði áhrif til lækkunar á V/H hlutfallið. Í dag er hlutfallið nokkuð lágt samanborið við erlend flugfélög. Hlutfallið hjá lággjaldaflugfélaginu Norwegian er t.a.m. 18 og hlutfallið hjá American Airlines, stærsta flugfélagi heims, er 11,7. Einnig er hægt að finna flugfélög með lægri hlutföll, t.a.m. er V/H hlutfall þýska flugfélagsins Lufthansa einungis 5,1.

N1 er það félag sem hefur horft upp á hlutfallslega mesta lækkun V/H hlutfalls frá skráningu, það hefur dregist saman um 60%, úr 22,3 niður í 8,9. Markaðsvirði félagsins hefur hækkað úr 18,8 milljörðum í yfir 30 milljarða, en hins vegar hefur hagnaðurinn stóraukist og var nær fjórfalt meiri árið 2016 en 2013.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .