Eric Schmidt, fyrrv. forstjóri og nú stjórnarformaður Google, hækkaði verulega í launum á milli ára í fyrra, eða um 25%. Þannig námu tekjur Schmidt frá Google í fyrra 1,25 milljónum Bandaríkjadala, samanborið við eina milljón dala árið áður.

Tekjur hans sem stjórnarformaður eru þó aðeins í dropi í hafið því hann fékk á síðasta ári um 101 milljón dala í heildarlaun og önnur hlunnindi, sem þó voru að langmestu leyti greidd út í formi kauprétta og hlutabréfum. Frá þessu er greint á fréttavef Reuters. Hlunnindin í fyrra komu þó helst til þar sem hann hafði starfað í 10 ár í toppstöðu hjá Google en um þau var samið í upphafi starfsferils hans.

Larry Page, meðstofnandi Google, tók sem kunnugt er við forstjórastöðunni af Schmidt í byrjun síðasta árs. Hann, ásamt Sergey Brin sem jafnframt stofnaði Google með þeim félögum, fékk um eina milljón dala í laun á síðasta ári – sem eru sömu laun og þeir hafa þegið árlega frá árinu 2004 og er þetta því sjöunda árið í röð sem þeir reikna sér sömu tekjur. Þegar taldir eru með aðrir bónusar fengu þeir félagar 1,786 milljón dala í árslaun skv. frétt Reuters.

Til gamans má geta þess að tekjur Google í fyrra námu ríflega 38 milljörðum dala.

Nikesh Arora, viðskiptastjóri Google, var næst launahæsti stjórnandi Google í fyrra með árstekjur upp á um 23,2 milljónir dala, samanborið við 22,6 milljónir dala árið 2010.