atNorth , hátæknifyrirtæki á sviði gagnavera og ofurtölvuþjónustu, afhenti í dag Miðeind eina öflugustu ofurtölvu landsins til afnota. Tölvan, sem er frá Hewlett Packard Enterprise , verður notuð í verkefnum á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku. Í tölvunni eru 8 nVidia A100 GPU -reikniörgjörvar, sem eru þeir öflugustu sem í boði eru í heiminum í dag og eru þeir tengdir saman með háhraða gagnatengingum að því er fram kemur í tilkynningu.

„Verkefni á borð við vélþýðingar milli íslensku og annarra tungumála, samantekt texta, spurningasvörun og talgreining eru nú til dags unnin með djúpum tauganetum sem líkja að sumu leyti eftir því hvernig mannsheilinn starfar," segir tilkynningunni. „Slík net krefjast mikils reikniafls og byggja á stórum gagnasöfnum. Með tilkomu nýju ofurtölvunnar mun Miðeind geta unnið enn sjálfstæðar, hraðar og markvissar en áður að krefjandi og aðkallandi verkefnum sviði íslenskrar máltækni og gervigreindar."

atNorth , sem áður hét Advania Data Centers , er stærsta gagnaversfyrirtæki landsins. Samhliða hefðbundinni gagnavershýsingu, sem fjölmörg erlend stórfyrirtækin nýta til að hýsa búnað, rekur fyrirtækið ofurtölvuþjónustu sem gerir fyrirtækjum eins og Miðeind kleift að nota ofurtölvur á svipaðan hátt og skýjaþjónustu. Verður nýja ofurtölvan hýst í gagnaveri fyrirtækisins, Mjölnir DC , að Fitjum í Reykjanesbæ.

Vilhjálmur Þorsteinsson
Vilhjálmur Þorsteinsson
„Teymið okkar klæjar í puttana að beita nýju vélinni á ýmsar helstu áskoranir í íslenskri máltækni og gervigreind. Samvinnan við atNorth hefur verið einkar lipur og við hlökkum til áframhaldandi vaxtar í samstarfinu,” segir Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Miðeindar.

Miðeind er 10 manna fyrirtæki sem tekur þátt í máltækniáætlun stjórnvalda og Almannaróms og er aðili að Samstarfi um íslenska máltækni ( SÍM ). Ein best þekkta afurð fyrirtækisins er radd -aðstoðar- appið Embla, sem skilur og talar íslensku og getur svarað margs konar spurningum. Þá rekur fyrirtækið vefina Vélþýðing.is og Yfirlestur.is , og gefur út íslenska máltæknihugbúnaðinn Greyni , sem er opinn, ókeypis og frjáls til afnota. Einnig heldur Miðeind úti Netskraflinu, sem margir kannast við.

Gísli Kr. Advania
Gísli Kr. Advania
„Við hjá atNorth höfum lagt ríka áherslu á að byggja lausnir fyrir næstu kynslóð kröfuharðra  tæknifyrirtækja á borð við Miðeind, sem starfar á einu af mest spennandi sviðum upplýsingatækninnar í dag. GPU reikniafl mun knýja tímamóta-lausnir sem, í tilfelli Miðeindar, gera okkar ástkæra og ylhýra tungumál aðgengilegt í tækniheiminum á heimsvísu, knúið af hreinni íslenskri raforku. Það er verkefni sem við hjá atNorth erum stolt af að styðja til árangurs.” segir Gísli Kr. Katrínarson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs atNorth .