*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 6. mars 2018 14:59

FA og BÍ takast á um innflutning

FA segir það „vítavert tómlæti“ af stjórnvöldum ef þau bregðast ekki hratt við og leyfa innflutning á ferskvöru þvert á kröfur BÍ.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félag atvinnurekenda andmælir kröfum Bændasamtaka Íslands um viðskiptahömlur á landbúnaðarafurðir, en kröfur BÍ hafa bæði verið settar fram í bréfi til ráðherra og í ræðu Sindra Sigurgeirssonar formanns samtakanna við setningu Búnaðarþings í gær.

Bendir félagið á að algengast sé að bæði magntollur og 30% verðtollur leggist á innflutning búvara, sem félagið segir að ætti að þykja drjúg vernd fyrir samkeppni. Vekur félagið jafnframt athygli á því að tollkvótar fyrir innlutningi á vörum á lægri tolli hafi rýrnað gríðarlega miðað við hlutfall af innanlandsneyslu síðan árið 1995 þegar WTO samningurinn hafi tekið gildi hér á landi. 

Segir FA í andmælabréfi til ráðherra að ef bændur ætla að fá leiðréttingu á tollum sem miðast við gildistöku samningsins árið 1995 ættu innflytjendur og neytendur að fá sambærilega leiðréttingu.

Vilja Bændasamtökin að krónutölutollar sem leggjast á hvert kíló innflutnings verði uppreiknaðir til að þeir skili árangri eins og það er orðað, en FA segir fráleitt að sú aðgerð frá árinu 1995 verði endurtekin. „Þvert á móti er rík ástæða til að lækka tolla til að efla samkeppni við innlendan landbúnað,“ segir í bréfi FA. 

„Alþýðusamband Íslands benti nýlega á það hvernig verð mjólkurvara hefði hækkað umfram almenna verðlagsþróun vegna þess hversu rækilega mjólkuriðnaðurinn er varinn fyrir samkeppni frá innflutningi.“ Jafnframt vilja Bændasamtökin fá endurupptöku samninga við ESB, sem Félag atvinnurekenda segir ekki ganga upp vegna misvísandi hagsmuna í út- og innflutningi.

Ófyrirsjáanlegar afleiðingar ef grafið verði undan EES samningnum

Aðrar kröfur Bændasamtakanna eru að Ísland uni ekki dómi EFTA dómstólsins um að leyfa beri innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk, eða að öðrum kosti verði gefinn að lágmarki þriggja ára aðlögunartími að þeirri breytingu. 

Segir FA að slíkar ákvarðanir myndu grafa undan EES samningnum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum en jafnframt segir félagið að stjórnvöldum hafi verið ljóst í rúman áratug að innflutningsbannið væri brot á samningnum. „Sé Ísland ekki reiðubúið að bregðast nú hratt við niðurstöðu sem var fyrirséð allan þann tíma, verður það að teljast vítavert tómlæti.“