*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 5. apríl 2019 15:50

FA og VR undirrita kjarasamning

Samkomulagið er í öllum meginatriðum samsvarandi samningum þeim er VR og SA undirrituðu.

Ritstjórn

Félag atvinnurekenda (FA) undirritaði í dag kjarasamning við VR og Landssamband íslenskra verslunarmanna. Samkomulagið er í öllum meginatriðum samsvarandi samningum þeim er VR og Samtök atvinnulífsins undirrituðu á miðvikudag. Samningstímabil er til 1. nóvember 2022.

Launahækkanir í samningnum eru þær sömu og hjá SA. Launahækkunin, 90 þúsund krónur yfir samningstímann, skilar sér að fullu til þeirra sem taka laun samkvæmt taxta en að þremur fjórðu til þeirra sem fá laun umfram taxta. Einnig er kveðið á um hagvaxtarauka í samningnum.

Samið var um styttingu vinnuvikunnar en styttingin mun nema 45 mínútum á viku. Útfærslan verður í framkvæmd hvers vinnustaðs fyrir sig og kemur til framkvæmda um áramótin.

Samningur FA við VR er þó öllu sveigjanlegri en samningur stéttarfélagsins við SA þegar kemur að skipulagi dagvinnutímabils. Þannig má vinna umsaminn hámarksvinnutíma hvenær sem er á milli klukkan 7-19 en strangari skilyrði eru hjá SA.

Stikkorð: kjaramál