Félag atvinnurekanda er ósátt við úrræði stjórnvalda um að niðurgreiða námskeið við endurmenntunardeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri ,sem ýmist eru gjaldfrjáls eða kosta 3.000 krónur. Félagið andmælir því harðlega að ríkisstofnanir skuli með þessum hætti fara í beina samkeppni við einkarekinn fræðslufyrirtæki. Er þetta í annað sinn sem þessum úrræðum er beitt frá upphafi faraldursins. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Félags atvinnurekanda.

Þá segir í tilkynningunni að einkarekin fræðslufyrirtæki hafi fengið tvöfalt högg í faraldrinum. Fyrst við samkomutakmarkanir sem urðu til mikils tekjumissis og svo síðasta sumar þegar að ríkisstyrktir háskólar fóru í beina samkeppni við þau. Virðist því allt stefna í að fræðslufyrirtæki muni fá annað högg nú í sumar, en ómögulegt er fyrir einkarekin fyrirtæki að keppa við hið niðurgreidda verð.

Sjá einnig: Ríkið styrkir ríkið

Félagið bendir á að ekki hafi verið nægilega hugað að samkeppnislegum áhrifum við gerð úrræðanna og sendi menntamálaráðherra erindi þann 13. apríl síðastliðinn, sem hefur ekki enn verið svarað. Snerist erindið um það hvort að samkeppnisáhrif námskeiðanna hefðu verið nægilega vel ígrunduð og afstöðu stjórnvalda til hugmyndar um úthlutun styrkja til sumarnáms með ávísanakerfi sem að svipar til ferðagjafarinnar.

Félagið krefst nú svara og furðar sig á því að ekki skuli enn hafa borist nein svör frá menntamálaráðuneytinu og að haldið sé áfram með úrræðin þrátt fyrir kvartanir til Eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppniseftirlitsins. Þá hefur Samkeppniseftirlitið sent ráðuneytinu bréf þar sem að það brýnir fyrir því að huga betur að þeim samkeppnislegu áhrifum sem að ráðstafanir þess geta haft.