Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu erindi og farið fram á upplýsingar um nýlega hækkun á matartollum. Þetta kemur fram á vefsíðu félagsins.

Í bréfi FA til ráðuneytisins er vísað er til nýlegrar auglýsingar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um WTO-tollkvóta sem birt var 27. maí síðastliðinn. Með samanburði við auglýsingu sem birtist 9. maí sjáist að magntollar hækki um 7,1 til 7,5% á milli ára.

„Með vísan til upplýsingalaga og hagsmuna matvælainnflytjenda í Félagi atvinnurekenda er hér með farið fram á að ráðuneytið afhendi öll gögn og útreikninga sem liggja að baki þessari tollahækkun, þ.m.t. afrit af öllum inn- og útsendum erindum og upplýsingum sem aflað var,“ segir í bréfi Félags atvinnurekenda.

Þá er þess óskað að ráðuneytið rökstyðji ákvörðun sína til fulls og tilgreini á hvaða reglugerðar- og lagaákvæðum það byggi ákvörðunina, hvaða hagsmunir hafi verið lagðir til grundvallar og með hvaða hætti hugað var að meðalhófi og hagsmunum neytenda.

Erindi félagsins til ráðuneytisins má lesa hér.