Félag atvinnurekenda hvetur Alþingi til að samþykkja ekki ákvæði búvörusamnings um hækkun tolla á mjólkurvörur.

Yfirgengilegt að semja við einn einkaaðila

„Það er í rauninni alveg yfirgengilegt að íslenska ríkið skuli semja við einn einkaaðila, sem eru Bændasamtökin, um að hækka skatta á öðrum einkaaðilum, sem eru innflytjendur á mjólkurvöru. Aðrar atvinnugreinar í landinu njóta ekki þeirra forréttinda að geta samið við ríkið um að hækka skatta á keppinautana,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda í fréttatilkynningu.

Tóku dæmi um hækkun í auglýsingu

Félagið tekur dæmi um verðhækkun á innfluttum mjólkurvörum sem fylgi ákvæðum um hærri tolla í búvörusamningi í heilsíðuauglýsingu sem þeir birtu í Fréttablaðinu í dag.

Ákvæðin í búvörusamningnum sem Alþingi tekur til lokameðferðar á næstu dögum, taka fram að landbúnaðarráðherra muni beita sér fyrir hækkun tollanna, en dæmið sem félagið tekur snýr að ostum.

Í stað tvöfölldunar mun verð tæplega þrefaldast

Er gert er ráð fyrir að innkaupsverð ostsins sé 500 krónur á kíló, sem þeir segja ekki óalgengt verð. Hingað til hefur ofan á það lagst 30% verðtollur auk 430 króna magntolls á kíló, sem leiðir til að kostnaðarverðið hefur rúmlega tvöfaldast og er það þá komið í 1.080 krónur.

Ákvæðið gerir ráð fyrir að magntollurinn verði hækkaður í 715 krónur á kíló, svo ostkílóið verður þá komið í 1.365 krónur, og verðið því hartnær þrefaldast. Þó er ekki búið að taka tillit til annarra opinberra gjalda og álagningar, svo verðhækkunin til neytenda verður í raun hærri, ef þessi ákvæði búvörusamningsins ná fram að ganga.

Svívirðilega háir tollar

„Við töldum ástæðu til að neytendur fengju að sjá hvaða áhrif búvörusamningurinn og lagabreytingar sem á að gera vegna hans hafa á verð á osti sem fluttur er til landsins,“ segir Ólafur.

„Mest af innfluttum osti er flutt inn á svokölluðum tollkvótum samkvæmt alþjóðasamningum. Þeir duga hins vegar ekki alltaf til að anna eftirspurn. Með þessari tollahækkun er í raun verið að koma í veg fyrir að innflytjendur geti flutt inn hluta af sínum innflutningi á fullum gjöldum. Tollarnir verða svo svívirðilega háir að sá innflutningur verður ekki samkeppnishæfur. Að einhverjum detti í hug að þetta sé í þágu neytenda er í meira lagi furðulegt.“