Baldur Thorlacius.
Baldur Thorlacius.

Frá hruni og til ársins 2011 má rekja að minnsta kosti 25 opinber viðurlagamál Kauphallarinnar með beinum eða óbeinum hætti til þess að útgefendur fjármálagerninga hafi forðast birtingu neikvæðra, verðmótandi upplýsinga og þar með gerst brotlegir við ákvæði reglna Kauphallarinnar. Þar af voru útgefendur beittir févítum í 20 tilvikum. Óopinber viðurlög voru enn fleiri, auk þess sem Fjármálaeftirlitið beitti marga útgefendur viðurlögum af sömu, eða svipuðum ástæðum.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í grein Baldurs Thorlacius , forstöðumanns eftirlitssviðs Kauphallarinnar, sem hann skrifar í Viðskiptablaðinu. Baldur segir svo virðast sem fyrirtæki forðist gagnsæið af hræðslu við dómstóla götunnar (eða jafnvel internetsins). Hann bendir á að á sama tíma og forsvarsmenn fyrirtækja sem skráð eru á markað eru skikkuð til að birta ítarlegar upplýsingar um fjárhagsstöðuna þá fá ógagnsæ fyrirtæki utan Kauphallar að athafna sig nokkurn veginn gagnrýnislaust.

„Ákveðin teikn eru þó á lofti um að skráð félög beri áfram þungann af gagnrýni sem ætti jafnvel erindi við meirihluta fyrirtækja í landinu, svo sem í umræðu um launakjör stjórnenda, vegna þess eins að um þau ríkir meira gagnsæi,“ skrifar Baldur.