Fyrir helgi var sátt milli Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts kynnt . Þar var meðal annars tilkynnt um að Íslandspóstur þarf að gera breytingar á skipulagi samstæðunnar og hlítir ítarlegum skilyrðum í starfsemi sinni.

Félag atvinnurekenda sem hefur harðlega gagnrýnt framferði Íslandspósts í samkeppni við einkafyrirtæki í gegnum tíðina. Í fréttatilkynningu frá samtökunum kemur segir: „Fyrirtækið hefur fært mjög út kvíarnar í skyldum og óskyldum rekstri og gengið fram af hörku í samkeppninni. Sterkar vísbendingar eru um að samkeppnisrekstur hafi verið niðurgreiddur með tekjum af einkaréttarstarfseminni. Þá hefur upplýsingagjöf Íslandspósts ekki verið í samræmi við lög og reglur, þannig að ekki hefur verið hægt að sannreyna að fyrirtækið fari að ákvæðum póstlaga og samkeppnislaga um aðskilnað rekstrarþátta.“

Félag atvinnurekenda fagnar því að Íslandspóstur hafi undirgengist skilyrði samkeppnisyfirvalda - en bendir þó á að sáttin þýðir í raun ekkert annað en að Íslandspóstur heiti því að fara af lögum. „FA lýsir furðu sinni á að sérstaklega sé tekið fram að með sáttinni viðurkenni Íslandspóstur engin brot á samkeppnislögum – enda má lesa það bæði út úr henni og fyrri niðurstöðum Samkeppniseftirlitsins að þau brot hafi verið víðtæk og viðvarandi – og að fyrirtækið greiði enga sekt. Vandséð er hvaða tilgangi það þjónar að fara um fyrirtækið slíkum silkihönskum,“ segir jafnframt í fréttinni.

FA bendir ennfremur á:

Sáttin miðar að því að tryggja að Íslandspóstur fari að lögum í framtíðinni. Rannsókn Samkeppniseftirlitins hefur hins vegar tekið alltof langan tíma og staðið allt frá árinu 2008. Sáttameðferðin hefur þar af staðið í tæp fjögur ár. Á þessum langa tíma hafa keppinautar ríkisfyrirtækisins orðið fyrir margvíslegu tjóni, sem ekki hefur verið bætt. Þessi langi málsmeðferðartími er í raun algjörlega óviðunandi. Sú spurning vaknar óneitanlega hversu langan tíma það muni taka að taka á mögulegum brotum Íslandspósts á sáttinni.

Á þessum tíma hefur Íslandspóstur fjárfest mikið í samkeppnisrekstri sínum, m.a. dreifikerfi fyrir fjölpóst og aðstöðu og tækjum til flutningastarfsemi í samkeppni við einkaaðila. Flest bendir til að féð til þeirra fjárfestinga hafi komið frá einkaréttarstarfseminni. Sáttin breytir því ekki, að komi til þess að ríkið selji Íslandspóst að hluta eða öllu leyti er þá um að ræða fyrirtæki sem hefur fengið margra milljarða ósanngjarnt samkeppnisforskot.

Áfram er þörf á að bæta opinbera upplýsingagjöf Íslandspósts til að auka gegnsæi í rekstrinum og eyða margumræddri tortryggni. Ekki virðist í sáttinni gert ráð fyrir að sérstök rekstraruppgjör fyrir hina ýmsu samkeppnisþætti verði birt opinberlega.

Í sáttinni er talsvert gert úr samstarfsvilja stjórnenda Íslandspósts við samkeppnisyfirvöld. Reynsla FA og félagsmanna þess, sem eru í samkeppni við ríkisfyrirtækið, hefur þvert á móti verið sú að stjórnendur Íslandspósts mæti málefnalegri gagnrýni á samkeppnishætti fyrirtækisins með hroka og fullkominni afneitun á að þeir hafi gert nokkuð rangt. Það hefur ekki breyst, ef marka má fréttatilkynningu Íslandspósts um sáttina.

Félag atvinnurekenda segir að öllu samanlögðu er því ljóst að tortryggni keppinauta Íslandspósts í garð félagsins hverfur ekki með þessari sáttargjörð.