Fjármálaráðuneytið hefur staðfest tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) um breytta aðferðafræði við útreikning á lífslíkum. Breytingin felur í sér að skuldbindingar hækka að jafnaði um 10% sem samsvarar hundruð milljarða hækkun. Ráðuneytið tilkynnti þetta í gær.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um nýlega kann að vera að án mótvægisaðgerða þurfi einhverjir lífeyrissjóðir að lækka útgreiddan mánaðarlegan lífeyri til vissra sjóðfélaga enda þarf að greiða út lífeyri í lengri tíma með bættum lífslíkum. Breytingin hefur mest áhrif á yngri sjóðfélaga.

Sjá einnig: Bregðast þurfi við hundruð milljarða hækkun

Vegna þessa hefur ráðuneytið gefið út að lífeyrissjóðir hafi til ársins 2023 til að innleiða breytinguna. Þó þurfa þeir sem ætla að byggja á gömlu lífslíkunum einnig að birta tryggingafræðilega stöðu sjóðsins með bæði nýju lífslíkunum við útgáfu ársreiknings.

FÍT hefur lagt til brugðist verði við með því að hækka lífeyristökualdur. Ríkisstjórnin boðar í stjórnarsáttmálanum gerð grænbókar um lífeyriskerfið þar sem meðal annars á að skoða hvernig bregðast eigi við auknu langlífi þjóðarinnar. Síðast stóð til árið 2017 að hækka ellilífeyrisaldur úr 67 ára í 70 ára á 24 ára tímabili en fallið var frá þeim breytingunni.

Sjá einnig: Hækkun lífeyrisaldurs slegið á frest

Breytingin á útreikningi lífslíka felur í sér að framreiknaðar eru væntingar um að meðalævi Íslendinga haldi áfram að lengjast en gamla aðferðafræðin hefur byggt á því að horfa á lífslíkur aftur í tímann.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða sagði nýlega við Viðskiptablaðið að nú væri að mörgu leyti góður tími til að innleiða breytinguna. „Flestir sjóðirnir eru með fremur góða tryggingarfræðilega stöðu núna. Það eru réttu aðstæðurnar til þess að taka upp svona breytingu þegar ávöxtunin hefur verið mjög góð."

Þá hafi iðgjöld í lífeyrissjóði verið hækkuð á undanförnum árum svo að sjóðfélagar, sér í lagi þeir yngri mættu vænta góðra lífeyrisréttinda.