Eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins um uppgjör Eimskips fyrir annan ársfjórðung þá nam eiginfjárhlutfall félagsins 61,6% í lok tímabilsins. Handbært fé frá rekstri nam 27,2 milljónum evra í lok júní 2012 og hafði lækkað um 16,3 milljónir evra frá árslokum 2011, einkum vegna fjárfestinga í skipum. Þetta eru um 4,2 milljarðar króna á núverandi gengi en þar af er um 3,5 milljarðar króna í lausafé.

Í myndskeiðinu hér að ofan er rætt við Gylfa um fjárfestingu félagsins í nýjum skipum. Eins og fram hefur komið eru tvö skip nú í smíðum fyrir félagið í Kína en það eru fyrstu skipin sem smíðuð eru fyrir Eimskip í um 15 ár. Þá hefur félagið fest kaup á þremur öðrum notuðu skipum á árinu.

Burðageta nýju skipanna er um 12.000 tonn. þau eru um 141 metri á lengd og 23 metrar á breidd. Gert er ráð fyrir að skipin verði afhent félaginu á næsta ári.

Fyrr á þessu ári gekk Eimskip frá kaupum á þremur frysti- og kæliskipum sem byggð voru í Árósum í Danmörku. Eimskip hafði verið með skipin á leigu frá árinu 2005. Skipin hafa aðallega verið gerð út frá Noregi og verið í flutningum þaðan inn á Eystrasalt og Rússland, en þau hafa einnig þjónað flutningi á frystum fiskafurðum frá Íslandi, Færeyjum og Nýfundnalandi eða á aðal markaðsvæði Eimskips.

Eimskip er nú með 18 skip í rekstri.