Þrátt fyrir dræma veiði í sumar er ekki sjálfgefið að veiðileyfin falli í verði fyrir næsta sumar. Væntanlega fer sala hægar af stað eftir dræmt laxveiðisumar en alltaf eru föst holl seld hvernig sem árar. Veiðiferðir eru fastir liðir í lífi svo margra sem snýst um meira en sjálfa veiðina.

Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, sagði nýlega í samtali við Bændablaðið að leigutakar þyrftu að standa í skilum við veiðifélög og mjög fá svæði losna í haust, en þá væri hægt að ná hagstæðari samningum eftir erfitt sumar. En þegar líður á næsta ár vilja leigutakar frekar lækka verð og selja óseld leyfi ef veiðimenn hafa þolinmæði til að bíða.